Dagur 4

Orlando - þriðjudagur 8. apríl

Það voru allir frekar þreyttir í morgun og fórum við því seint af stað. Fengum okkur morgunverð á netkaffihúsinu sem
ég sæki daglega til að senda bloggið. Mjög vinalegt og þægilegt kaffihús www.panera.com Soldið sérstakt að sitja með
tölvuna og borða morgunmatin á meðan netið er skoðað.

Síðan var haldið í mótorhjólabúð þar sem Konni keypti hitt og þetta til að lagfæra hjólið sitt sem hann krassaði
á síðasta ári. Krakkarnir féllu algjörlega fyrir hjóli sem þarna var en því miður kemst það ekki í neina töskuna.
Þau fengu uppls. um mótorhjólasýningu sem þau fara á næsta fimmtudag, þá ætla ég sko að vera heima!
Verðlagning hér er öll án skatts svo maður þarf að bæta skatti ofaná til að fá heildarverð, það finnst mér frekar
skrýtið því ég hefði haldið að allir greiddu skatt, en þetta er kannski svo fólk sé meðvitað um hvað ríkið er að
fá í sinn vasa, kannski að þetta þyrfti að taka upp heima, þá held ég nú að fólk myndi hugsa sig um tvisvar áður
en það keypti vöruna að sjá alla skattaparadísina sem við búum í!

Nú jæja þar sem veðrið var ekkert sérstakt, aftur, þá ákváðum við að fara í Gatorland (krókódílagarð) sem var þarna
rétt hjá, en miðað við aðstæður þar þá fannst okkur hann vera frekar dýr og hættum við enda var farið að rigna pínu
ponsu lítið. Nú voru góð ráð dýr. Hvað skyldi gera, það var því ákveðið að fara í Downtown Disney. Og viti menn um
leið og við leggjum á planinu þar kemur þá ekki sólinn fram úr felum með öllum sínum hita. Það er alveg merkilegt hvað
við erum heppin með að fá sólina þegar við ákveðum að eyða deginum úti. 

Nú við þræddum allar búðir í Downtown og enduðum á að fara í Rainforest cafe www.rainforestcafe.com  Það var
geggjuð upplifun og maturinn æðislegur. Að vísu þoldi Tinna Rós illar gervi þrumurnar og eldingarnar því það er
mjög MIKILL hávaði þarn inni bara svo þeir viti sem langar að fara þangað.

Í heildina séð þá var dagurinn mjög góður þó að Tinna mín þreytist ansi mikið á öllu labbinu en hún tekur það
samt ekki í mál að vera í kerru, finnst það kannski of barnalegt.  Fjóla Dögg og Konni eru í brúnkukeppni en
ég held að Konni sé búin að vinna okkur öll samanlagt, hann þarf nú ekki annað en að sjá mynd af sólinni þá er
hann orðinn kaffibrúnn......

Allir komnir í koju fyrir 11 í kvöld, ætlum snemma af stað í fyrramálið og keyra til Busch Gardens.

Bestu kveðjur xxxXXXxxx


Dagur 3

Orlando - Mánudagur 7. apríl

Veðrið í morgun lofaði ekki góðu. Hitinn í gærkvöldi datt niður í 19c + en það var samt ekki kalt.  Þrumuveðrið heldur
enn áfram og held ég að besta líkinginn við hljóðið sem kemur er að vera með eyrað niðri við jörðina og hlusta á
hófadyninn á veðreiðum.

Við skelltum okkur því á www.Ponderosa.com og fengum okkur morgunmat, all you can eat! Krökkunum fannst það ótrúlegt að
hægt væri að borða endalaust fyrir nokkra dollara og urðu ennþá meira hissa þegar þjóninn kom og tók glösin þeirra sem
voru rétt orðin hálf og kom með önnur full í staðinn! Tinna Rós hefur haft frekar litla matarlyst eftir að við komum út,
er ennþá hálf lasin og er ég fegin að ég skyldi taka aukaskammt af mixtúru með sem hún er nú farin að taka inn.

Oh my God, ég steingleymdi að segja frá því hvern ég sá á ströndinni í gær, rúntandi um á Hummernum sínum, ljóshærða gæjann
úr Queer eye for the straight guys eða Fab.5 eins og þeir heita víst í dag! Ógesslega kúl mar !!!!

Núh, eftir morgunmatinn var frekar skýjað ennþá svo við fórum á Ripleys safnið, persónulega finnst mér það of dýrt miðað
við hvað það er lítið nýtt af sjá þar. Maður hefur séð svo mikið í sjónvarpinu heima og bókunum.

Oh my God, oh my god, hljómaði frá Fjólu Dögg þegar við gengum út af safninu. Það var komin sól og brakandi hiti. Fengum
okkur smá göngutúr um hverfið. Fyrir utan ein minigolfvöllinn var síki með krókódílum í og voru þeir auðvitað skoðaðir í
bak og fyrir, eftir smá meira labb ákváðum við síðan að skella okkur í Seaworld þar sem veðrið var orðið svona gott.

Það var sko frábær dagur sem við áttum þar. Sáum sýningu sem heitir Believe með háhyrningnum Shamu og vinum hans.
Ekkert smá dramatísk byrjun og kynning á þeirri sýningu. Sýningin var alveg æðisleg og þar sem ég er svo mikil
tilfinningapúki og þetta var allt svo yfirþyrmandi þá sat ég þarna og tárin láku niður, búhú. Það flottast sem ég hef séð,
enda er ég soddan fiskur í mér, fæddist greinilega í röngu stjörnumerki. Sáum risaskjaldbökur, höfrunga, stingskötur,
hákarla, laufdreka, Manatee sem ég held að sé sækýr á íslensku, samt ekki alveg viss,  og margt margt fleira.
Fórum líka á aðra sýningu þarna með höfrungum sem heitir Blue Horizons og var hún heilt leikrit með Amazon páfagaukum,
Condor/hrægammur og mörgum höfrungum. Sú sýning er sko mikið fyrir augað og er algjört must að sjá fyrir þá sem ætla
í Seaworld. Konni komst í náinn kynni við Skallaörn en þá var myndavélin annars staðar.

Við keyptum miðana okkar "on-line" og gilda þeir í Seaworld og Busch Garden. Þeir gilda í 7 daga og er því hægt að fara
daglega í hvorn garð fyrir sig. Ef miðarnir eru keyptir á staðnum þá þarf að fara í "guest service" og láta stimpla miðann
til að hann gildi aftur, þar framvísar maður líka læknisvottorði til að fá forgangspassa í raðir og hægt að fá kerrur
og hjólastóla.

Um sexleytið voru allir orðnir svangir og var þá ákveðið að næra sig fyrir svefninn. Ætluðum að fara á Rainforest Café
og fá okkur kvöldmat en þá var a.m.k. tveggja tíma bið. En halló, við héldum að þetta væri bara veitingastaður niðri í
bæ, en nei, aldeilis ekki. Þetta er heill heimur útaf fyrir sig sem heitir Downtown Disney. Þetta er svona mini útgáfa
af öllu sem tengist Disney. Verslanir og veitingahús. Heilt Lego Lochness skrímsli úti á vatninu, Lego fjölskylda úti
að labba með börn og hundana sína, þetta fannst Jóni alveg frábært. Prinsessu búð sem Tinnu langar að fara í (skrýtið).
Það var því ákveðið að nota tímann "þegar ekkert verður að gera" að fara þangað aftur. Geggjaður staður.

Enduðum á Outback Steakhouse www.outback.com og fengum okkur kvöldverð. Jón fékk sér humarhala, Fjóla og Konni BBQ rifjur,
Tinna hamborgara og ég kjúlla.  Tinna var nú orðin svo þreytt að ég þurfti hreinlega að mata hana.  En............ þegar
við vorum búin að borða og á leiðinni heim þá var nú unga daman búin að hlaða batteríin. Þvílíkt bull, hún þóttist tala
ensku alla leiðina, og "ensku" orðaforðinn hennar er alveg frábær, við gátum ekki annað en hlegið.  Vorum komin heim rétt
fyrir 11, fórum í sturtu og hrotur heyrðust í húsinu rétt fyrir miðnætti. ZZZZZzzzz

Fyrir þá sem vilja fylgjast með fréttum þegar þeir eru hér í Orlando þá er fréttastöðin channel 13 news með nýjustu fréttir,
og er alltaf mikið um að vera, massíf umferðarslys, morð, árásir, og menn sem keyra út í skurði í Gatorland.

Annar er allt gott að frétta af okkur, allir við góða heilsu.!

kveðja, frá Orlando :-}


Dagur 2

Orlando - Sunnudagur 6. apríl


Mamman vaknaði klukkan 07 í morgun við það hvað allt var hljótt. Fór fram úr og kíkti út. Kolniðamyrkur
eins og um hávetur á Íslandinu. Skreið uppí aftur.  Tinna Rós kom uppí 09:30 og vakti mig. Fórum á fætur
og fengum okkur morgunmat. Hún hið klassíska Cheerios án aukaefna með mjólk. Ég aftur á móti fékk endurlit
í barnæskuna þegar ég fékk mér marglitað Fredda Flinstone morgunkorn með fullt af litarefnum!! Ég bíð
alltaf spennt eftir að við fáum meira úrval af morgunkorni heima á Íslandi, en nei allt er bannað út af
litarefnum, samt er í lagi að selja bláa orkudrykki svo tungan verður blá. O, jæja. Við mæðgurnar fengum
smá skemmtiatriði yfir morgunmatnum þegar íkorni rauk yfir lóðina hjá okkur.

Restin af fjölskyldunni var komin framúr og kom þá í ljós að flassarinn okkar frá því í gærkvöld var ennþá
inni í sundlaugargarðinum. Þegar við sáum félaga hans, uppþornaðann og steindauðann þá ákváðum við Fjóla Dögg
að frelsa litla prinsinn. Náð var í rauðvínsglas og mamman, mikli froskaveiðarinn, handsamaði prinsinn í
glasið svo allir fengu að sjá. Síðan var garðurinn opnaður og prinsa veitt frelsi.

Ákváðum að keyra til Daytona þar sem veðrið lofaði ekki góðu hér í Orlando. Komum við á Vöffluhúsi og fengum
okkur morgunmat, aftur, en þá var klukkan að verða 12. Ég held ég haldi mig við jógúrt í morgunmat þegar heim
kemur, vöfflur með sýrópi heilla mig ekki en Jón skóflaði í sig "heilum tveimur" en var þá líka búinn að fá
nóg. Á bílastæðinu þar tók ég eftir skilti að ef ófatlaður leggur í stæði fyrir fatlaða þá þarf hann að punga
út 250$. Gott framtak hjá löggæslunni hér. Enda er maður alltaf að sjá lögguna hér tala við bílstjóra og löggan
er alltaf sýnileg.

Fengum gott ferðaveður til Daytona. Á leiðnni sáum við krókódila svamla í fjöruborði og vakti það mikla lukku,
hjá okkur öllum, fórum í Beach Store, verslun með allt fyrir "ströndina". Fengum smá kaupæði þar og skelltum
okkur síðan á ströndina. Á ströndinni má fara með bílinn og er hægt að keyra ströndina enda á milli svo
framarlega sem hraðinn er ekki meiri en 10 mílur.  Sandurinn var svo fínlegur að þegar við fórum af ströndinni
var hann enn fastur á okkur. Vorum komin tímalega í bílinn þegar rigning dundi á Daytona.
Keyrðum heim til Orlando í grenjandi rigningu. Eftir gærdaginn þá tengir Tinna Rós þrumur og eldingar við
rigningu. Hún var alltaf að spyrja á leiðinni hvort það væru komnar þrumur og eldingar. Henni varð að endingu
við ósk sinni. 

Pabbinn eldaði steikur fyrir okkur í kvöldmat sem smakkaðist mjög vel, með kartöflum og bernaise sósu.

Veðrið úti er ansi skuggalegt rigning og rok, þrumur og eldingar. Þrumugnýrinn er þvílíkur að það er eins
og verið sé að draga gám eftir þurru malbiki og svo drynur í húsinu. Ég vona bara að við fjúkum ekki á haf út!
Nei, bara að grínast eins og Tinna Rós segir.

Veðurspáinn er svona meira eða minna þann tíma sem við verðum hér svo við þurfum að skipuleggja ferðir okkar í
garðana mjög vel. Hlaupa af stað þegar styttir upp. Ef við fáum svona skítaveður á morgun líka þá ætlum við að
skella okkur í www.ripleysorlando.com Riple´s Believe It or Not. Þar er fólki sérstaklega bent á að taka með
myndavélar og taka myndir. Jamm enginn hætta á öðru!

Okkur finnst það soldið sérstakt að allt sjónvarpsefni er textað á ensku og finnst okkur það mjög fyndið.
Þetta er eins og að lesa handrit af leikriti. T.d. (maður 1 segir:) (Kona syngur í bakgrunni) allt textað,
líka lög sem eru spiluð undir myndinni eru textuð. Frekar fyndið í gær þegar Patsy Kline var að syngja gamlan
slagara og er að telja upp fylki í USA og söng svo hratt að textavélin hafði varla við.

Ástarkveðjur úr rokrassssssgatinu Orlando Florída, djók.


Dagur 1

Orlando - Laugardagur 5. apríl

Jæja loksins er langþráðum áfanga náð. Við erum komin til Orlando. Fengum ágætis flugveður fyrir utan það
að þegar við vorum komið yfir Washington þá lentum við í þrumveðri svo himnarnir lýstust upp. Krökkunum
fannst æðislegt að sjá þrumurnar í seilingarfjarlægð. Þrumverðrið fylgdi okkur alla leið til Orlando, hægt
að segja að okkur hafi verið tekið með "flugeldasýningu". Við vorum farin að sofa 05 að morgni að íslenskum
tíma og voru þá flest allir búnir að vaka í sólarhring.

Vöknuðum um 10 leytið að amerískum tíma og var veðrið frekar þungskýjað en hlýtt. Krökkunum fannst frábært
hvað vindurinn var hlýr og ofboðslega heitt úti, 25c + ath. í plús, hvað er "heitt" heima núna?
Fórum í búðarþvæling þar sem við höfum ákveðið að fara í skemmtigarða á mánudag, miðvikudag og föstudag.
Fjóla Dögg missti sig yfir öllu úrvalinu af skóm, hún missti sig líka yfir öllum "prom" kjólunum.
Fjóla Dögg er komin til SHOP HEAVEN!

Fjóla Dögg hafði keypt sér sko í Aldo í Kringlunni og var hún stoppuð í einni tískubúðinni og spurð hvar
hægt væri að fá svona skó, hún brosti bara og sagði: In Iceland. hahah
Einnig keypti hún sér belti með ljósaskilti og vakti það mikla lukku þegar hún gekk um göturnar blikkandi
með skilaboðunum "Fjóla Bleika" að vísu er hún búin að setja inn nýjan texta fyrir morgundaginn og er það
"Daddy´s little girl"

Þvældumst á milli búða til að verða sex. Jón og pabbi hans fundu dýrabúð með alls konar kvikindum. Allt
kvikt á milli himins og jarðar, kúl þótti Jóni að sjá eðlur, snáka og Tarantúlu. Við Fjóla Dögg fundum
Michaels art and craft og fórum við inn og út aftur, þessi búð þarf meira en klukkutíma stopp.  Keyrðum
upp og niður International Dr. og var margt þar sem gladdi auga strákanna. Fullt af flottum bílum.

Tinna Rós rambaði inn í Disney verslun og keypti sér þar eina Barbie prinsessu og prins. Hún fór líka í
fatabúð og keypti sér kjól og fullt af fötum og hélt fyrir okkur tískusýningu áðan, sneri sér í marga hringi
og setti upp stellingar eins og vön sýningardama.

Fengum smá sýnishorn af veðrinu, sól og hita, ringingu og hita, þrumur, eldingar og hita, ennþá meiri ringingu
svo mikla að göturnar fóru á flot á einu augnabliki.  Nú þegar þetta er skrifað er klukkan orðin 20:30 og
himnarnir eru enn að lýsast upp af ógeðslega!!! flottum eldingum, þrumugnýrinn er ógurlegur. Þessi veðurspá
er víst fyrir næstu 4 daga og ætlum við því að nota tímann til að fara á söfn og keyra jafnvel niður til
Kennedy Nasa Space Center og jafnvel upp til Daytona því þar verður veðrið betra. Ég vona samt að við fáum
tækifæri á að fara í a.m.k. einn garð á mánudag eða miðvikudag.

Mér finnst alveg frábært hvað krakkarnir eru heillaðir af stærðinni af öllu hér. Það er gott því þá er
tilganginum náð að gera þau ánægð því þetta er jú þeirra ferð.

Hápunkturinn í lok dagsins var að froskur flassaði á okkur á stofugluggangum og var smá eltingarleikur við
að ná mynd af honum, hann var látinn synda í sundlauginni 800 metrana og var hann þá orðin svo þreyttur að
hann var alveg kjurr þegar hann hoppaði upp á bakkann og var hann þá myndaður í bak og fyrir, frægasti froskur
dagsins.

Þrumukveðjur frá okkur öllum. xxx


Á eftir !!

Ég er komin með svo mikinn fiðring. Hvað haldið þið að Jón hafi spurt mig! þessa flughræddu að í morgun? "Mamma er hætta á því að við hröpum?" Halló, maður spyr ekki svona, svo ég sagði honum að það væri meiri hætta á að lenda í bílslysi en flugslysi....

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband